Ert þú meðalmaðurinn?
Þegar kemur að langtímasparnaði getur skipt sköpum hvaða leið er valin til að ávaxta féð.

Einföld og þægileg leið til að byggja upp sparnað, án mikillar fyrirhafnar, er að skrá sig í áskrift í sjóðum fyrir almenna fjárfesta. Það er einfalt að stofna mánaðarlega áskrift, þar sem þú velur fasta fjárhæð sem sérfræðingar sjá um að fjárfesta fyrir þína hönd. Fjárhæðin þarf ekki að vera há og er skuldfærð sjálfkrafa af reikningnum þínum.
Áskrift í sjóðum er einstaklega hentug leið til að byggja upp langtímasparnað, enda er góð eignadreifing lykillinn að langtímaárangri í sparnaði. Það að setja öll eggin í sömu körfu hefur yfirleitt ekki skilað bestum árangri til lengri tíma. Sjóðir dreifa áhættu með því að fjárfesta í mörgum mismunandi eignaflokkum, svo sem í skuldabréfum, hlutabréfum og/eða öðrum eignum. Fjárfesting í slíkum sjóðum er því alla jafnan áhættuminni en fjárfesting í stökum verðbréfum. Sjóðirnir eru ávallt innlausnarskyldir og því geta sparifjáreigendur óskað eftir innlausn á eignarhlut sínum hvenær sem þeim hentar.
Með því að nýta fleiri en einn sparnaðarkost má bæði dreifa áhættu og auka líkur á betri ávöxtun. Þannig nýtist féð mun betur til lengri tíma en ef það væri látið safnast upp á hefðbundnum innlánsreikningi eða fjárfest í stökum eignum. Þá veitir eignadreifing fjárfestum betra skjól þegar sveiflur verða á mörkuðum. Þótt slíkar sveiflur geti reynst fráhrindandi til skemmri tíma, þá hefur skipulagður sparnaður í sjóðum sögulega séð skilað stöðugri og traustri ávöxtun til lengri tíma.
En hvers vegna ekki einfaldlega að fjárfesta í stökum hlutabréfum? Það getur verið spennandi, sérstaklega ef maður hefur mikla trú á tilteknu félagi. Hins vegar er það tímafrekt og krefst þekkingar að halda sér nægilega vel upplýstum til að „tímasetja markaðinn“, þ.e. að finna rétta augnablikið til að kaupa og selja. Hugmyndafræðinni er oft lýst sem „buy low, sell high“ – eða að kaupa lágt og selja hátt. Í framkvæmd er þetta þó afar erfitt fyrir hinn almenna fjárfesti. Fjárfestirinn Ray Dalio orðaði þetta ágætlega: „Meðalmaðurinn hefur tilhneigingu til að kaupa hátt og selja lágt.“ Í staðinn er hægt að treysta á sérfræðinga með áratuga reynslu á fjármálamörkuðum til að stýra sparnaðinum þínum eftir skýrri stefnu og með festu. Þannig má tryggja stöðuga og góða ávöxtun til lengri tíma – án þess að þurfa að fylgjast grannt með markaðnum á hverjum degi.
Íslandssjóðir bjóða upp á fjölbreytt úrval sjóða - allt frá sjóðum sem fjárfesta einungis í skuldabréfum og öðrum áhættuminni eignum, til sjóða sem eingöngu fjárfesta í hlutabréfum, bæði innanlands og erlendis. Það er einfalt að skrá sig í áskrift í sjóðum Íslandssjóða í gegnum netbanka Íslandsbanka. Þú velur fasta fjárhæð sem skuldfærð er mánaðarlega af reikningnum þínum og lögð inn í þann sjóð sem þú hefur valið. Lágmarksupphæð í áskrift er aðeins 5 þúsund krónur og þegar þú skráir þig færðu 100% afslátt af kostnaði við kaup og greiðir ekkert afgreiðslugjald. Því er um að ræða hagstæða leið til að byggja upp langtímasparnað.
Höfundur
Jóhann Óskar Jóhannsson
Aðstoðarmaður sjóðastýringar

Fyrirvari vegna fræðsluefnis
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.