IS Haf fjárfestingar slhf.
Sjóðurinn var stofnaður í upphafi árs 2023. Um lokaðan sjóð er að ræða og nemur stærð hans 10 milljörðum króna.

Sérhæfður sjóður í haftengdri starfsemi
IS Haf er sérhæfður sjóður skv. lögum 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Sjóðurinn var stofnaður í febrúar 2023 og fjárfestir í haftengdri starfsemi. Líftími 9-11 ár en þar af er fjárfestingatímabil 4 ár. Um lokaðan 10 milljarða króna framtakssjóð er að ræða en fjárfestingargeta hans er hins vegar talsvert meiri með meðfjárfestaheimildum sjóðsins. Megináhersla er lögð á fjárfestingartækifæri á vaxtarstigi á Íslandi sem og öðrum svæðum við norður heimskautsbaug. Sjóðurinn er áhrifafjárfestir í þeim félögum sem hann á hlut í og stefnir almennt að meirihlutaeign. Hann getur hins vegar tekið minni stöður ef um sterka minnihlutavernd er að ræða og stjórnarsæti til að tryggja það að hann sé í aðstöðu til að hafa áhrif á framgang og stjórnun viðkomandi fyrirtækis.
Fjárfestingarstefna sjóðsins
Fjárfestingarstefna sjóðsins nær yfir virðiskeðju eldis- og sjávarafurða, allt frá hráefni til tæknifyrirtækja, innviða, líftækni og markaðssetningar. Áhersla er lögð á verðmætasköpun með stærðarhagkvæmni, þekkingaryfirfærslu og samlegðaráhrif. Fjárfestingum er dreift á fimm flokka innan haftengdrar starfsemi.
Hráefni: Útgerðir, fiskvinnsla og fiskeldi
Haftengd tækni: Þróun og framleiðsla á haftengdri hátækni á heimsmælikvarða
Innviðir og þjónusta: Hraður vöxtur í fiskeldi krefst uppbyggingu innviða og þjónustu
Sölu- og markaðsmál: Slagkraftur í stærri sölu- og markaðseiningum fyrir hvítfisk og lax
Sjávarlíftækni: Verðmætasköpun með fullnýtingu hráefnis
Fjárfestingar sjóðsins

Sjóðurinn fjárfesti í sænska félaginu NP Innovation AB í byrjun árs 2025. Félagið er með höfuðstöðvar í Malmö og sérhæfir sig í þróun og framleiðslu vatnsmeðhöndlunarbúnaðar fyrir fiskeldi. Árangur í fiskeldi er háður gæðum vatnsins, sem eru nauðsynlegt til að tryggja góða dýraheilsu og framleiðslu matvælum af góðum gæðum.
Fyrirtækið var stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson, sem er áfram hluthafi eftir kaupin.
Meðfjárfestar eru AF3, sjóður í rekstri Alfa Framtak, norska félagið Broodstock Capital, auk stofnanda og lykilstarfsmanna NP Innovation.

Sjóðurinn eignaðist 53% hlut í Thor Landeldi í ágúst 2023. Félagið hefur byggt upp seiðaeldisstöð og vinnur að uppbyggingu 20 þúsund tonna landeldi á laxi í Þorlákshöfn. Lóð félagsins er 25 hektarar að stærð og hentar vel fyrir laxeldi á landi þar sem mikið er af ferskvatni og hraunsíuðum grunnsjó.
Stofnendur eru Jónatan Þórðarson, Þórður Þórðarson og Halldór Ragnar Gíslason, sem eru afar reynslumikið teymi með áratuga reynslu af laxeldi. Meðfjárfestar eru m.a. Frank Yri og Alex Vassbotte, sem eru reyndir norskir fjárfestar í laxeldi.

Sjóðurinn undirritaði samning um kaup á 41% hlut í KAPP í september 2023. Fyrirtækið sérhæfir sig í kælitækni og fjölbreyttum lausnum fyrir sjávarútveg sem stuðla að gæðum og bættri nýtingu sjávarafurða. Það er að auki er félagið í fararbroddi í þróun umhverfiskælimiðla og hlaut m.a. viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins í október 2024. Félagið hefur verið í stöðugum vexti, m.a. með yfirtökum á félögunum Raf, Optimar Iceland og Stáltech. Eftir fjárfestingu sjóðsins hefur Kapp fjárfest í tveimur félögum: Kami Tech í Bandaríkjunum og Kapp Skaganum sem áður var Skaginn 3X.
Kapp var stofnað árið 2007 af Frey Friðrikssyni.

Sjóðurinn fjárfesti í norska líftæknifyrirtækinu Regenics AS í júlí 2024. Félagið framleiðir sárameðferðarvörur úr laxa- og silungshrognum sem lýtir fyrir bata brunasára og langvinnra sára. Kaupin voru gerð í gegnum félagið Nordic Blue hf. í samvinnu við aðra fjárfesta.
Samstarf við Útgerðarfélag Reykjavíkur
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. er kjölfestufjárfestir og ráðgjafi sjóðsins. Félagið er öflugt útgerðarfyrirtæki og er stærstu hluthafi Brims hf., með 44% hlut, en félagið er skráð í íslensku kauphöllina. Með ráðgjafarsamningi milli Útgerðarfélags Reykjavíkur og IS Haf gegna fulltrúar Útgerðarfélagsins lykilhlutverki í fjárfestingateymi sjóðsins við greiningu og mati á fjárfestingatækifærum.
Sjálfbærni og umhverfisáhrif
Sjóðurinn leggur mikla áherslu á sjálfbærni og mun samþætta umhverfis-, félags- og stjórnarhætti (UFS) við ákvarðanatöku og með virku eignarhaldi í fjárfestingum sjóðsins. Sjóðurinn setur mælanleg UFS markmið fyrir hverja fjárfestingu og miðlar UFS lykilupplýsingum ársfjórðungslega til hluthafa sinna.
Fjárfestingateymi og fjárfestingaráð
Fjárfestingateymi og ráðgjafar
Kristrún Auður Viðarsdóttir
Sjóðstjóri - Sérhæfðar fjárfestingar

Brynjólfur Gísli Eyjólfsson
Sjóðstjóri - Sérhæfðar fjárfestingar

Gunnar Rúnar Gunnarsson
Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf.

Runólfur Viðar Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf.

Fjárfestingaráð
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir
Forstjóri tryggingafélagsins Varðar
Hermann Kristjánsson
Stofnandi og forstjóri Vaka fiskeldiskerfa frá 1986 til 2016
Hildur Hauksdóttir
Sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS
Hilmar Kjartansson
Bráðalæknir, frumkvöðull og einn meðstofnanda Kerecis
Runólfur Viðar Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf.
Hluthafar
Hluthafar sjóðsins eru íslenskir lífeyrissjóðirnir ásamt Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. og og Brim hf.
- Útgerðafélag Reykjavíkur
- 20.0%
- Birta Lífeyrissjóður
- 20.0%
- LSR
- 20.0%
- Frjálsi lífeyrissjóðurinn
- 14.9%
- Almenni lífeyrissjóðurinn
- 10.0%
- Brim
- 7.6%
- Eftirlaunasjóður FÍA
- 2.0%
- Lífeyrisauki Arion banka
- 2.0%
- Lífeyrissjóður bænda
- 1.0%
- Lífeyrisþjónusta Íslandsbanka
- 1.0%
- Vörður - Vátryggingarhluti
- 1.0%
- Lífeyrissjóður Rangæinga
- 0.5%
Nánari upplýsingar veita
Kristrún Auður Viðarsdóttir
Sjóðstjóri - Sérhæfðar fjárfestingar

Brynjólfur Gísli Eyjólfsson
Sjóðstjóri - Sérhæfðar fjárfestingar
