Áhætta
Fjárfesting í sjóðum felur í sér áhættu þar sem gengi sjóða getur lækkað jafnt sem hækkað. Fjárfesting í sjóði er þó áhættuminni en fjárfesting í einstökum verðbréfum vegna þess að sjóður fjárfestir í mörgum verðbréfum og dreifir þannig áhættunni.
Hlutabréfasjóðir eru áhættumeiri en skuldabréfasjóðir. Gengi þeirra er háð mörgum þáttum en þar vega væntingar um afkomu hlutafélaga mjög miklu. Gengi og ávöxtun skuldabréfasjóða er háð þróun markaðsvaxta. Ef vextir hækka, falla skuldabréf með föstum vöxtum í verði og skuldabréf með háum meðallíftíma falla meira í verði en skuldabréf með lágum meðallíftíma, miðað við sömu breytingar á ávöxtunarkröfu.
Tilteknum sjóðum er heimilt að nota afleiður, t.d. til þess að lágmarka áhættu, fastsetja hagnað vegna verðsveiflna eða til stöðutöku.
Fjárfestar ættu að hafa í huga að fjárfesting í sjóðum er jafnan hugsuð til langs tíma og hugsanlega fá þeir minna til baka en þeir fjárfesta fyrir í upphafi. Verðmæti eignar í sjóði getur á einhverjum tímapunkti verið lægra en það var fyrr á eignartímanum og ávöxtun í fortíð er ekki vísbending um hver ávöxtun verður í framtíð.
Áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu er mikilvægt að kynna sér eðli viðkomandi fjármálagernings og þá áhættu sem í honum felst en nákvæma lýsingu á áhættuþáttum hvers og eins sjóðs má finna í útboðslýsingu sjóða.
Hér að neðan má finna almenna áhættuþætti sem eiga við flestar tegundir fjármálagerninga sem og áhættu sem getur falist í fjárfestingu einstakra fjármálagerninga.
a) Markaðsáhætta: Sú áhætta að verðbreytingar á mörkuðum hafi óhagstæð áhrif á fjármálagerninga.
b) Vaxtaáhætta: Sú áhætta að breytingar á vöxtum hafi óhagstæð áhrif á virði fjármálagernings.
c) Gjaldeyrisáhætta: Vegna gengisbreytinga getur myndast hagnaður eða tap þótt virði undirliggjandi fjármálagernings í þeirri mynt sem hann er skráður í breytist ekki.
d) Seljanleikaáhætta: Sú áhætta að fjárfestir geti ekki auðveldlega selt eða keypt ákveðinn fjármálagerning á tilteknum tímapunkti eða geti einungis gert það á kjörum sem eru umtalsvert lakari en gengur og gerist á virkum markaði á hverjum tíma.
e) Efnahagsleg áhætta: Hagsveiflur hafa oft áhrif á verð fjármálagerninga. Sveiflurnar eru mismunandi, geta verið mislangar og mismiklar, og áhrifa þeirra gætir með mismunandi hætti á ólíkar atvinnugreinar. Við ákvörðun um fjárfestingu þarf að gæta vel að áhrifum almennra hagsveiflna, m.a. milli landa og ólíkra hagkerfa, á virði fjármálagerninga.
f) Landsbundin áhætta: Landsbundin áhætta felur m.a. í sér stjórnmálalega áhættu, gjaldeyrisáhættu, efnahagslega áhættu og áhættu vegna fjármagnsflutninga. Átt er við þá efnahagslegu þætti sem gætu haft umtalsverð áhrif á viðskiptaumhverfið í því landi sem fjármálagerningurinn er skráður í.
g) Lagaleg áhætta: Sú áhætta að stjórnvöld geri breytingar á núgildandi lögum eða reglugerðum sem hefðu neikvæð áhrif á virði fjármálagerninga.
h) Verðbólguáhætta: Þegar fjárfestar meta ávöxtun af tilteknum fjármálagerningi er nauðsynlegt að gera það með hliðsjón af verðbólgu og verðbólguhorfum til að áætla vænta raunávöxtun af fjárfestingu og raunvirði núverandi eignar.
i) Mótaðilaáhætta: Hættan á því að mótaðili fjármálagernings muni ekki standa við samningsbundnar skuldbindingar sínar að fullu.
j) Uppgjörsáhætta: Uppgjörstap getur átt sér stað vegna vanefnda og vegna mismunandi tímasetningar uppgjörs milli tveggja aðila.
a) Fyrirtækjaáhætta: Við gjaldþrot getur hluthafi tapað öllu því fé sem hann lagði fram í upphafi.
b) Verðáhætta: Verð hlutabréfa getur hækkað og/eða lækkað.
c) Arðgreiðsluáhætta: Væntar arðgreiðslur hluthafa geta minnkað eða fallið niður.
a) Útgefandaáhætta: Útgefandi skuldabréfa getur orðið tímabundið eða varanlega ófær um að greiða skuldbindingar sínar. Lánshæfismat hans getur einnig tekið breytingum.
b) Vaxtaáhætta: Ef vaxtastig á viðkomandi markaði hækkar þá leiðir það til lækkunar á markaðsverði bréfsins og öfugt ef vextir lækka. Áhrif vaxtabreytinga á verð skuldabréfa eru meiri eftir því sem líftími bréfanna er lengri.
c) Innköllunaráhætta: Skilmálar skuldabréfs geta falið í sér heimild fyrir útgefanda til að innkalla bréfin fyrir lokagjalddaga. Slík innköllun getur haft áhrif á ávöxtun kaupanda skuldabréfsins ef t.d. vextir á almennum markaði hafa lækkað.
d) Áhætta tengd ólíkum tegundum skuldabréfa: Önnur áhætta en að ofan hefur verið greint frá getur falist í fjárfestingum í ólíkum tegundum skuldabréfa og því er fjárfestum ráðlagt að kynna sér skilmála hverrar skuldabréfaútgáfu fyrir sig.
a) Sala og innlausn: Verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta eru innlausnarskyldir. Þær aðstæður geta þó komið upp að viðskipti með undirliggjandi eignir sjóða takmarkist vegna tímabundinnar óvissu um útgefendur fjármálagerninga í eigu sjóða. Í slíkum tilvikum er heimilt að fresta innlausnum í sjóði tímabundið.
b) Lagaáhætta: Starfsemi einstakra sjóða getur fallið undir hvort heldur íslensk eða erlend lög sem getur þýtt að ákveðin fjárfestavernd eða hömlur á starfsemi sem eru í gildi í einu lögsagnarumdæmi eigi ekki við í öðrum lögsagnarumdæmum.
c) Skuldsetning: Skuldsetning getur aukið áhættu í starfsemi sjóðsins og haft kostnað í för með sér sem getur leitt til lækkunar á virði hlutar fjárfestis í sjóðnum.
d) Réttur til þátttöku: Fjárfestir í sjóði hefur yfirleitt lítinn sem engan rétt til að taka þátt í og/eða hafa áhrif á starfsemi viðkomandi sjóðs.
e) Fjárfestingarstefna: Áhættustefna sjóða er mismunandi og áhættudreifing því mismikil milli sjóða en almennt felst meiri áhætta í sjóðum eftir því sem áhættudreifingin er minni.
f) Verðmat: Ef sjóður fjárfestir í eignum sem ekki eru auðseljanlegar getur verið erfitt að meta virði hlutdeildarskírteina/hlutabréfa hans.
g) Undirliggjandi eignir: Markaðsáhætta og áhætta sem fólgin er í fjárfestingarstefnu sjóðsins, s.s. fjárfestingum utan skipulegra verðbréfamarkaða, skortsölu fjármálagerninga og skuldsettum kaupum og/eða sölu, geta haft áhrif á virði undirliggjandi eigna sjóðsins.
h) Stjórnunaráhætta: Rangar ákvarðanir sjóðstjóra og stjórnenda geta leitt af sér tap fyrir sjóðinn og fjárfesta.
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.