Hvað er sjóður?
Hér má finna stutta umfjöllun um þá sjóði sem eru í boði fyrir almenna fjárfesta annars vegar og fagfjárfesta hinsvegar. Einnig er fjallað stuttlega um einstaka fjármálagerninga þ.e. hlutabréf, skuldabréf, afleiður og óskráð verðbréf.
Verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfestaVerðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og fjárfesta ýmist í skuldabréfum, hlutabréfum og/eða öðrum fjármálagerningum. Um sjóðina gilda lög nr. 116/2021 um verðbréfasjóði og lög nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, X. kafli, og sækja þeir fjárfestingarheimildir sínar til laganna. Fjárfestingarstefnur sjóða má finna í útboðslýsingum þeirra. Verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta dreifa áhættu með því að fjárfesta í mörgum fjármálagerningum og er fjárfesting í slíkum sjóðum því áhættuminni en fjárfesting í einstökum fjármálagerningum. Sjóðirnir eru ávallt innlausnarskyldir og því geta hlutdeildarskírteinishafar óskað eftir innlausn á eignahlut sínum þegar þeim hentar. Munurinn á verðbréfasjóði og sérhæfðum sjóði fyrir almenna fjárfesta liggur helst í fjárfestingarheimildum þeirra og að auki hefur verðbréfasjóður heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) en ekki sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Þar sem sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta hafa rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir geta þeir því verið áhættumeiri.
|
Sérhæfðir sjóðirUm sérhæfða sjóði gilda lög nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða en einungis fagfjárfestum er heimilt að fjárfesta í þeim. Engar lagalegar takmarkanir eru á fjárfestingum slíkra sjóða og fjárfesting í þeim er mun áhættusamari en í öðrum sjóðum. Sérhæfðir sjóðir eru ekki innlausnarskyldir og hafa gjarnan fyrirfram skilgreindan líftíma.
|
HlutabréfHlutabréf eru gefin út til hluthafa sem staðfesting fyrir þeim hlut sem hann á í hlutafélagi. Hluthafi nýtur þeirra réttinda sem lög og samþykktir hlutafélagsins kveða á um. Ávöxtun hluthafa getur verið í formi arðgreiðsla en einnig getur verð hlutabréfsins hækkað. Áhætta fylgir fjárfestingum í hlutabréfum þar sem virði félags og gengi getur sveiflast.
|
SkuldabréfSkuldabréf er skuldaviðurkenning þar sem útgefandi bréfsins skuldbindur sig til þess að greiða eiganda bréfsins tiltekna fjárhæð á ákveðnum tíma með þeim kjörum sem bréfið tilgreinir. Útgefendur skuldabréfa á markaði eru jafnan opinberir aðilar og fyrirtæki. Skilmálar skuldabréfa eru ávallt ákveðnir fyrirfram, s.s. vextir og endurgreiðsla skuldarinnar. Vextir geta verið fastir eða breytilegir. Skuldabréf geta auk þess verið verðtryggð og tekur þá höfuðstóll skuldarinnar breytingum í samræmi við gildi tiltekinnar verðvísitölu, t.d. vísitölu neysluverðs. Höfuðstóll skuldarinnar er annaðhvort greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga eða á fyrirfram ákveðnum gjalddögum. Kaupandi skuldabréfs (kröfuhafi) á kröfu á hendur útgefanda (skuldara) um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Fjárfesting í skuldabréfum felur í sér áhættu. |
AfleiðurAfleiður eru flokkur fjármálagerninga sem byggja verðmæti sitt á verðþróun annarrar eignar/eigna sem kallaðar eru undirliggjandi eignir. Algengar undirliggjandi eignir eru verðbréf, hrávörur, vextir og gengi gjaldmiðla. Afleiðusamningar veita fjárfesti rétt, sem getur verið valkvæður, til að kaupa eða selja einhverja undirliggjandi eign eða til uppgjörs í reiðufé. Virði slíks samnings byggir á þróun undirliggjandi eignar/eigna frá samningsdegi til uppgjörsdags. Minniháttar breyting á verðmæti undirliggjandi eignar í afleiðusamningi getur haft hlutfallslega mikil áhrif á verðmæti samningsins með tilheyrandi jákvæðum eða neikvæðum afleiðingum fyrir viðkomandi fjárfesti. Afleiður geta verið notaðar til þess að verjast áhættu en þeim getur einnig fylgt áhætta. Dæmi um ólíka afleiðusamninga eru framvirkir samningar, valréttarsamningar, samningar um fjárhagslegan mismun, skiptasamningar og afleiður utan skipulegs verðbréfamarkaðar. |
Óskráð verðbréfÓskráð verðbréf eru t.d. skuldabréf og hlutabréf sem ekki hafa verið tekin til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði á borð við Nasdaq Iceland. Fjárfestingar í óskráðum verðbréfum bera aukna áhættu í samanburði við skráð verðbréf.
|
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.