Bók um lífeyrismál á mannamáli

Á undanförnum árum hafa augu Íslendinga í vaxandi mæli opnast fyrir mikilvægi þess að leggja fyrir til eftirlaunaáranna. Mörgum finnst lífeyrismál þó flókin og erfitt að sjá fyrir hversu mikið þurfi að spara til þess að hafa nægilegar tekjur til að geta lifað góðu lífi eftir að vinnu lýkur.

Í Verðmætustu eigninni er fjallað um þennan málaflokk og sýnt fram á með skýrum og einföldum hætti að hér eru á ferðinni mál sem allir geta auðveldlega sett sig inn í og tekið í sínar hendur. Tilgangurinn er að veita upplýsingar um lífeyris- og eftirlaunamál í víðu samhengi og gefa góð ráð um leiðir til að auka tekjur í starfslok og tryggja fjárhagslegt öryggi á öðrum æviskeiðum.

Verðmætasta eignin kom út árið 2004 og er fjórða bók útgefanda er tengist fjármálum. Áður hafa komið út Hlutabréf og eignastýring árið 2003, Verðbréf og áhætta árið 1994 og Fjármálahandbók VÍB árið 1992.

1. kafli - Fyrst er að safna...

Upphitun og kynning á viðfangsefni bókarinnar. Í kaflanum kemur fram að lífeyrismál og eftirlaunasparnaður eru oft vanmetin viðfangsefni í fjármálum einstaklinga. Þau fjalla um það hvernig við tryggjum fjárhagslegt öryggi á starfsævinni og hvernig við söfnum upp réttindum og eignum til að greiða eftirlaun í starfslok. Þegar kemur að starfslokum eru lífeyrisréttindi og eftirlaunasparnaður yfirleitt verðmætasta eignin og ætti fólk að hugsa um þessi mál í því samhengi.

1. kafli (515kb)

 

2. kafli - Réttindi í lífeyrissjóðum

Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru stærsta „uppspretta" tekna á eftirlaunaárunum. Á Íslandi eru allir vinnandi menn á aldrinum 16 til 69 ára skyldugir til að greiða 10% af heildarlaunum í lífeyrissjóð. Í kaflanum er fjallað um íslensku lífeyrissjóðina og þau mikilvægu réttindi sem þeir veita. Einnig er fjallað um fjárhagslega afkomu sjóðanna og hæfi þeirra til að standa við skuldbindingar sínar.

2. kafli (1,2mb)

 

3. kafli - Viðbótarlífeyrissparnaður og annar sparnaður

Viðbótarsparnaður er nauðsynlegur til að tryggja óbreytt lífsmynstur á eftirlaunaárunum. Viðbótarsparnaður getur verið bæði viðbótarlífeyrissparnaður, sem er sérstaklega hagstæður sparnaður en er bundinn til 60 ára aldurs og annar sparnaður sem er alltaf laus. Í kaflanum er að finna lýsingu á báðum þessum sparnaðarformum og samanburð á þeim.

3. kafli (1mb)

 

4. kafli - Hver er staða þín?

Það er ekki hægt að skipuleggja eftirlaunasparnaðinn og velja persónutryggingar ef maður veit ekki hver núverandi staða er. Í kaflanum er fjallað um hvaða upplýsingum þarf að safna til þess að meta hver eftirlaunin verða í starfslok, miðað við núverandi lífeyrisréttindi og sparnað. Eins er skoðað hvaða bætur eru greiddar ef einstaklingur missir starfsgetu eða fellur frá.

4. kafli (1,2mb)

 

5. kafli - Hvert skal stefna og hvernig er hægt að komast þangað?

Til þess að vita hvað þarf að leggja fyrir til eftirlaunaáranna er nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið til að stefna að. Að því loknu þarf að bera saman markmiðin og núverandi stöðu. Því næst er gerð áætlun um hvernig á að ná markmiðunum. Kaflinn fjallar um þetta og nokkrar leiðir til að auka eftirlaunin. Í öllum áætlunum verður að gera ráð fyrir að forsendur geti breyst, til dæmis vegna starfsorkumissis eða andláts. Fjallað er um leiðir til að tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar við slíkar aðstæður.

5. kafli (1,4mb)

 

6. kafli - Um ávöxtun eftirlaunasparnaðar

Fjölmargar leiðir bjóðast til að ávaxta eftirlaunasparnað. Val á ávöxtunarleið fyrir eftirlaunasparnað er mjög mikilvæg ákvörðun sem getur haft afgerandi áhrif á fjárhagslega afkomu á eftirlaunaárunum. Í kaflanum er fjallað um þetta og farið yfir nokkur góð ráð um ávöxtun eftirlaunasparnaðar til að tryggja að markmið um eftirlaun náist.

6. kafli (2,1mb)

 

7. kafli - ...svo er hægt að eyða

Þegar kemur að töku lífeyris er mikilvægt að skipuleggja sig vel.Mikilvægt er að þekkja rétt sinn til eftirlauna. Í kaflanum er fjallað um tekjur eftirlaunaþega og reglur sem gilda um töku lífeyris. Kaflanum lýkur með umfjöllun um fráfall maka og flutning eigna milli kynslóða.

7. kafli (1,2mb)

 

Annað efni úr bókinni

Formáli og efnisyfirlit (494kb)
Viðaukar: Um lífeyriskerfi annarra þjóða, Mat á núverandi stöðu (1,7mb)
Skrár: Heimildaskrá, orðskýringar atriðisorðaskrá, vefsíður (736kb)
Bókin í heild sinni (8,9mb)
Fyrirvari vegna fræðsluefnis
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.