Valmynd

Íslandssjóðir hf. – Árshlutauppgjör 2012

Stjórn Íslandssjóða hf., sem rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, hefur staðfest árshlutareikning félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2012.

Afkoma Íslandssjóða hf. fyrstu sex mánuði ársins 2012

  • Árshlutareikningi félagsins er skipt í tvo hluta, A-hluta sem inniheldur árshlutareikning Íslandssjóða, þ.e. rekstrarfélagsins, og B-hluta sem inniheldur árshlutareikning verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Þessi framsetning á reikningnum er í samræmi við reglur um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem settar eru af Fjármálaeftirlitinu.
  • Hagnaður rekstrarfélagsins eftir skatta fyrstu sex mánuði ársins 2012 er 127 m.kr. samanborið við 98 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 568 m.kr. samanborið við 541 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður, jukust um 5%.
  • Rekstrargjöld námu 409 m.kr. samanborið við 419 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður og lækkuðu um 2,4%.
  • Heildareignir félagsins 30. júní 2012 námu 3.166 m.kr. en voru 2.854 m.kr. í árslok 2011.
  • Eigið fé 30. júní 2012 nam 1.794 m.kr. en var 1.741 m.kr. í árslok 2011.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 160,5% í lok júní, en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8%.
  • Í lok júní 2012 voru 19 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 110.100 milljónum króna samanborið við 112.890 m.kr. í lok árs 2011. Þar af eru 15 verðbréfasjóðir með hreina eign að upphæð 100.972 milljónir króna og 4 fjárfestingarsjóðir með hreina eign að upphæð 9.128 milljónir króna. Einn sjóður sem skráður er í Lúxemborg er í stýringu félagsins.
  • Á árinu tóku Íslandssjóðir yfir rekstur og stýringu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags Byrs. Um var að ræða sjóðina Skuldabréfasjóðinn, Alþjóða virðissjóðinn og Alþjóða vaxtarsjóðinn, auk Fyrirtækjasjóðsins sem er í slitaferli. Við þessa yfirtöku jukust eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum um 2.292 milljónir. Yfirtakan á rekstri sjóðanna var samþykkt af Fjármálaeftirlitinu þann 14. maí og átti yfirfærslan á eignum sjóðanna sér stað þann 31. maí.
  • Í lok júní voru framkvæmdar lokaútgreiðslur úr sjóðunum 9.3 - Peningamarkaðsbréf USD og 9.1 - Peningamarkaðsbréf EUR og hefur sjóðunum þar með verið formlega slitið.
  • Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af Deloitte ehf., en við könnun kom ekkert fram sem bendir til annars en að reikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins og sjóðanna á fyrstu 6 mánuðum ársins 2012.
  • Í lok júní 2012 störfuðu 15 starfsmenn hjá Íslandssjóðum. Framkvæmdarstjóri félagsins er Agla Elísabet Hendriksdóttir.

Fréttatilkynning (pdf)
Árshlutareikningur (pdf)