Valmynd

Hæsta ávöxtun í Hlutabréfasjóðnum árið 2013*

Hlutabréfasjóðurinn**, sem er í boði hjá VÍB, skilaði 46,2% ávöxtun á árinu 2013 sem er hæsta ávöxtun íslenskra hlutabréfasjóða á árinu. Hlutabréfasjóðurinn stendur almennum fjárfestum og fagfjárfestum til boða hjá VÍB,eignastýringarþjónusta Íslandsbanka auk þess sem hann er mikilvægur þáttur í stýringu Einkabankaþjónustu VÍB.

Síðastliðin fimm ár hefur Hlutabréfasjóðurinn verið með bestu uppsöfnuðu ávöxtunina eða 19,8% á ársgrundvelli. Þá hefur Hlutabréfasjóðurinn einnig verið með bestu árlegu ávöxtunina sl. þrjú ár. Sjóðurinn var með 24,14% ávöxtun árið 2012 og 13,35% árið 2011. Hlutabréfasjóðurinn er rekinn af Íslandssjóðum og sjóðstjórar eru Mogens G. Mogensen og Ármann Einarsson. 

Markmið Hlutabréfasjóðsins er langtíma hækkun eigna með fjárfestingum í hlutabréfum skráðum í Kauphöllinni eða öðrum fjármálagerningum tengdum hlutabréfum. Stefnt er að því að ná hærri ávöxtun en vísitala aðallista með arði sem reiknuð er út af Kauphöllinni (OMXIGI). Hlutabréfasjóðurinn hentar fjárfestum sem vilja ávaxta fé í fimm ár eða lengur. Mælt er með því að sjóðurinn sé hluti af stærra verðbréfasafni. Sveiflur í gengi sjóðsins geta verið miklar og niðursveiflur á hlutabréfamörkuðum langar. Sjóðurinn leitast við að fjárfesta í traustum fyrirtækjum sem eru líklegust til að skila sem bestri ávöxtun að mati sjóðstjóra. Til þess að auka vænta ávöxtun er fjárfest í fáum félögum hverju sinni sem hefur þau áhrif að áhættudreifing verður minni en ef fjárfest er í dreifðara safni hlutabréfa. Nánari upplýsingar og útboðslýsingu má nálgast á vefsíðunni www.vib.is

VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, var valin fremsta eignastýringarþjónustan á Íslandi af breska fjármálatímaritinu World Finance. World Finance horfir til þátta á borð við fjárfestingastefnu, mat á árangri í eignastýringu, gegnsæi og áhættumat, árangur og ávöxtun og upplýsingagjöf til viðskiptavina og fræðslustarfs.

* Skv. sjodir.is 9. janúar 2014. Ávöxtunartölur miðast við nafnávöxtun og er ávöxtun umfram 12 mánuði umreiknuð í ávöxtun á ársgrundvelli.
**Sjóðurinn er fjárfestingarsjóður skv. lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
Ávöxtun í fortíð er ekki ávísun á ávöxtun í framtíð. Hafa ber í huga að eign í fjárfestingarsjóði getur bæði hækkað og lækkað, allt eftir þróun á markaðsverði hennar. 
Íslandssjóðir hf. er rekstrarfélag sjóðsins. Útboðslýsingu og nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Íslandssjóða, islandssjodir.is. Fjárfestar eru hvattir til að kynna sér útboðslýsingu sjóðsins og þá sérstaklega umfjöllun um áhættuþætti.