Valmynd

Íslandssjóðir stofna sértryggða sjóði

Íslandssjóðir hafa stofnað tvo nýja fjárfestingarsjóði sem fjárfesta að stærstum hluta í sértryggðum skuldabréfum. Annar sjóðurinn mun fjárfesta í blöndu af verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum en hinn sjóðurinn fjárfestir einungis í verðtryggðum skuldabréfum.

Sértryggð skuldabréf eru útgefin af viðskiptabönkum og eru tryggð með undirliggjandi tryggingasafni til viðbótar við ábyrgð útgefanda. Skuldabréfin njóta þannig sérstakra tryggingaréttinda sem gerir þau áhættuminni fyrir fjárfesta. Í dag eru útgefendur sértryggðra skuldabréfa þrír talsins, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, og nýta þeir sértryggðar útgáfur til þess að fjármagna íbúðalán. Markaður með sértryggð skuldabréf hefur vaxið umtalsvert á síðustu misserum og eru útgáfur bankanna þriggja komnar yfir 100 ma. kr. en skuldabréf fyrir yfir 50 ma. kr. hafa verið gefin út á þessu ári.

Haraldur Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða: 
„Við höfum mikla trú á uppbyggingu markaðs með sértryggð skuldabréf og teljum að nú sé góð tímasetning til að fara með auknum krafti inn á þann markað. Íslandssjóðir eru leiðandi á skuldabréfamarkaði og eru nýju sjóðirnir að bregðast við þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á fjármögnun húsnæðislána“.

Íslandssjóðir hf. er sérhæft félag á sviði sjóðastýringar með yfir 100 milljarða króna í stýringu í skuldabréfasjóðum félagsins. Íslandssjóðir er dótturfélag Íslandsbanka og má nálgast nánari upplýsingar um nýju sjóðina hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka í síma 440-4900.