Afkoma sjóða í stýringu hjá Íslandssjóðum á árinu 2024 var jákvæð um 15,5 milljarða króna, sem rennur til viðskiptavina félagsins í formi ávöxtunar. Rekstur Íslandssjóða hf. var stöðugur á árinu og námu þóknanatekjur 1.877 milljónum króna og hagnaður af rekstri félagsins var 433 milljónir króna. Alls voru eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum 364 milljarðar króna í árslok.
Hjá Íslandssjóðum starfa 23 sérfræðingar með áratuga reynslu af eigna- og sjóðastýringu. Íslandssjóðir eru með um 28% markaðshlutdeild á sjóðamarkaði fyrir almenna fjárfesta en um tólf þúsund viðskiptavinir ávaxta sparifé sitt í þeim 23 sjóðum sem félagið starfrækir.
Lykiltölur úr rekstri 2024
- Hagnaður sjóða í stýringu félagsins var 15,5 milljarðar samanborið við 7,1 milljarð árið 2023 og ríflega tvöfaldaðist á milli ára.
- Hagnaður félagsins eftir skatta var 433 m.kr. samanborið við 514 m.kr. árið 2023.
- Rekstrartekjur námu 2.090 m.kr. samanborið við 2.107 m.kr. árið áður og lækkuðu um 0,8%.
- Rekstrargjöld námu 1.542 m.kr. samanborið við 1.465 m.kr. árið 2023 og hækkuðu um 5,3%.
- Eigið fé í árslok 2024 var 1.911 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 39,7% en hlutfallið má lægst vera 8%.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:
„Þrátt fyrir að árið 2024 hafi verið krefjandi framan af rættist verulega úr því á seinni hluta ársins. Árið í heild sinni var því farsælt fyrir sparifjáreigendur og allir sjóðir okkar skiluðu jákvæðri raunávöxtun á árinu. Verðbólgan virðist loks á undanhaldi og vaxtalækkunarferlið framundan felur í sér ýmis tækifæri. Óvissuþættir hér heima og á alþjóðavísu munu þó eflaust hafa áhrif á eignaverð þegar horft er fram á veginn og er auðsýnt að mínu mati að mikilvægi faglegrar eignastýringar og góðrar eignadreifingar hefur sjaldan verið meiri.“
Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka.
Ársreikninga félagsins og sjóðanna er að finna hér.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, í gegnum netfangið kjartan@islandssjodir.is