Upplýsingagjöf tengd sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu
Reglugerð ESB um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (hér eftir „SFDR“ ) var innleidd hérlendis með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar og tók gildi 1. júní 2023. Í reglugerðinni er gerð krafa um að aðilar á fjármálamarkaði, líkt og Íslandssjóðir, birti upplýsingar til fjárfesta að því er varðar hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn, hvernig tekið er tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærni, eflingu umhverfislegra eða félagslegra þátta og sjálfbærar fjárfestingar.
Ekki er tekið tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti á einingastigi
Íslandssjóðir taka að svo stöddu ekki tillit neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti á einingastigi líkt og lýst er í a. lið 1. mgr. 4. gr. SFDR. Íslandssjóðir birta því ekki þær upplýsingar sem kveðið er á um í greininni.
Ástæðan fyrir því að Íslandssjóðir taka ekki tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti á einingastigi er að upplýsingagjöf varðandi félagið sjálft mun ekki gagnast endanlegum fjárfestum þar sem fjárfestingar þeirra eiga sér stað á vettvangi mismunandi sjóða í rekstri félagsins en ekki í félaginu sjálfu. Íslandssjóðir munu endurmeta árlega hvort taka skuli tillit til neikvæðra áhrifa af fjárfestingarákvörðunum á sjálfbærniþætti á einingastigi.
Tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærni á stigi fjármálaafurða (sjóða)
Með hliðsjón af einkennum þeirra sjóða sem eru í rekstri félagsins hverju sinni og einkum hjá þeim sjóðum sem eru með „sjálfbæra fjárfestingu“ sem sérstakt fjárfestingarmarkmið eða sérstakt markmið um að efla „umhverfis- eða félagslega þætti“ munu Íslandssjóðir ákveða og birta hvort, og að hvaða leyti, tillit sé tekið til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á stigi fjármálaafurða.
Í tengslum við sjóði í rekstri Íslandssjóða, þar sem ekki er tekið gagngert fram að markmið þeirra sé að efla umhverfis- eða félagslega þætti eða að hafi sjálfbæra fjárfestingu að markmiði, munu Íslandssjóðir ekki taka tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestinga á sjálfbærni.
Í tengslum við sjóði í rekstri Íslandssjóða sem hafa sérstakt markmið um að efla umhverfis- eða félagslega þætti eða hafa sjálfbæra fjárfestingu að markmiði þá munu Íslandssjóðir taka tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærni að því marki sem lýst er í útboðslýsingu viðkomandi sjóðs og birta helstu upplýsingar um áhrifin í ársreikningi viðkomandi sjóðs.
Í öllum tilfellum vísast til útboðslýsingar viðkomandi sjóðs varðandi hvaða tiltekna stefna á þessu sviði á við um sjóðinn.
Gagnsæi starfskjarastefnu í tengslum við hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn
Samkvæmt 3. gr. SFDR ber aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum skylda að birta upplýsingar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni sé felld inn í starfskjarastefnu félaga.
Starfskjarastefna Íslandssjóða er uppfærð árlega og er markmið hennar að gera starf hjá félaginu að eftirsóknarverðum kosti fyrir hæft starfsfólk og þar með tryggja samkeppnishæfni félagsins, framþróun, viðunandi arðsemi félagsins sem og árangur sjóða og eignasafna í stýringu þess.
Með starfskjarastefnunni er reynt að tryggja að starfskjör starfsmanna samræmist og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustýringu og hvetji ekki til áhættusækni sem er í ósamræmi við áhættusnið eða reglur þeirra sjóða sem Íslandssjóðir reka eða dragi úr möguleikum félagsins til að starfa með hagsmuni sjóða sem það rekur að leiðarljósi sem og hagsmuni eignasafna í stýringu félagsins. Áhætta tengd sjálfbærni er ekki undanskilin í því sambandi. Jafnframt að starfskjör starfsmanna samræmist viðskiptaáætlun, markmiðum, gildum og hagsmunum Íslandssjóða og sjóða sem félagið rekur og fjárfesta í þeim sjóðum og leiði ekki til hagsmunaárekstra.